Hvað er Advaita Vedanta?
Advaita Vedanta – einnig kallað algildishyggja (enska: non-dualism) – er heimspekileg og andleg hefð frá Indlandi sem snýst um að viðurkenna veruleikann sem eina og óaðskiljanlega heild. Samkvæmt þessum skilningi er enginn raunverulegur aðskilnaður á milli „mín“ og „heimsins“ – allt er tjáning sömu meðvitundar.
Við upplifum oft lífið í gegnum hugsanir, samsömun við ytri atriði og þær skoðanir og hugmyndir sem komast upp í vana. Þetta getur skapað aðskilnaðartilfinningu hjá okkur. Advaita Vedanta bendir á að þessar skynjanir séu blekking og að okkar sanna eðli sé hrein meðvitund – frjáls, ótakmörkuð og tengd öllu.
Þessi skilningur getur fært huganum djúpan frið og frelsi. Með sjálfsskoðun, hugleiðslu og nærveru getum við uppgötvað að við erum ekki hugsanir okkar eða hlutverk – heldur meðvitundin á bak við þau.
Sri Ramana Maharshi og sjálfsskoðun
Sri Ramana Maharshi (1879–1950) er einn þekktasti nútímakennari Advaita Vedanta. Hann bjó á Arunachala-fjalli í Suður-Indlandi, þar sem í dag er Sri Ramanasramam – ashram sem tileinkað er lífi hans og kenningum. Meginaðferð hans var sjálfsrannsókn – einföld æfing þar sem athyglinni er beint inn á við með spurningunni: „Hver er ég?“ Ramana Maharshi benti á að okkar sanna eðli sé alltaf til staðar og að við getum nálgast það þegar við horfum út fyrir hugsanir og sjálfsmynd hugans. .
Mín eigin nálgun
Það er ekki ætlun mín að benda á eina leið sem algildan sannleika og ég mun aldrei ganga gegn þinni persónulegu andlegu trú.
Ég hef það að leiðarljósi að við þurfum fyrst og fremst að læra að sýna sjálfum okkur kærleika á sama hátt og við sýnum öðru fólki kærleika. Upp úr því getur dýpri ró og innri friður vaxið og kannski leitt okkur að næsta skrefi: spurningunni „Hver er ég?“.
Innilegasta hamingjan felst ekki í eignum, stöðu eða ytri aðstæðum, heldur er hún innra með okkur sjálfum. Erfiðleikar geta verið upphafið að nýrri vegferð og gefið okkur tækifæri til að beina sjónum okkar inn á við og uppgötva okkar sanna eðli.
Ég bý nálægt hinu helga fjalli Arunachala í Tiruvannamalai, sem hefur verið miðstöð andlegrar hugleiðslu um aldir. Hér hugleiði ég í nokkrar klukkustundir daglega og sekk mér niður í Advaita Vedanta. Þessi iðkun veitir mér innri frið, dýpri tengingu við sjálfið og um leið er hún mér innblástur fyrir meðferðarstarf mitt, þar sem ég leitast við að sameina vestræn sálfræðileg sjónarmið við tímalausa nálgun úr austrænum viskuhefðum.


